Hvers vegna barnaleikhús

Hvers vegna barnaleikhús?

134979_mokollur

Möguleikhúsið telur mikilvægt að reka barna- og unglingaleikhús á Íslandi. Leikhúsupplifun er nauðsynlegur þáttur í menningar- uppeldi og þroska barna og unglinga. Með greiðum aðgangi að leikhúsi fá börn og unglingar með lifandi hætti notið tungumálsins frá unga aldri sem og lært ný hugtök og heiti. Þannig styrkir leikhúsið málvitund og málþroska barnanna.

 

Sjónarhorn sem hentar börnum

Með aðferðum leikhússins er hægt að taka á viðkvæmum málefnum og vekja umræðu á þáttum sem varða okkur í dag. Með því að skoða hlutina frá sjónarhorni sem hentar börnum má hjálpa þeim að öðlast skilning á málefnum sem tekin eru fyrir hverju sinni og auka þroska þeirra.
134976_hafrunBörn eiga rétt á að sú leiklist sem þeim stendur til boða sé ekki síður metnaðarfull en það sem er í boði fyrir fullorðna. Hefur þetta verið eitt af leiðarljósum í starfi Möguleikhússins

Í leikhúsinu hafa börnin tækifæri til að læra jafnræði, umburðarlyndi gagnvart öðrum og skilning á högum annarra auk þess að virkja ímyndunarafl og sköpunargleði sína. Leikhúsið gerir áhorfendur víðsýnni og reynslunni ríkari og vekur þá til umhugsunar á jákvæðan hátt.

 

Mikil eftirspurn

Leik- og grunnskólar landsins hafa tekið vel í starf leikhússins og eru ávallt opnir fyrir að fá það aftur í heimsókn. Þessi staðreynd styrkir okkur í þeirri trú að leikhús af þessu tagi sé nauðsynlegur þáttur í starfi skólanna.

 

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands fyrir leikárið 2001-2002 var Möguleikhúsið þriðja hæst í aðsókn á eftir Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu með í kringum 20 þúsund áhorfendur á ári. Er því hafið yfir allan vafa að mikil þörf er á barna- og unglingaleikhúsi á Íslandi.