Um leikhúsið

Hvað er Möguleikhúsið?134982_aevintyrabokin

Möguleikhúsið er atvinnuleikhús sem var stofnað árið 1990 og sérhæfir sig í leiksýningum fyrir börn og unglinga.

 

Eitt af áhersluatriðum leikhússins er að tryggja sem flestum aðgang að sýningum þess og fer stærstur hluti sýninganna fram í leik-, grunn- og framhaldsskólum landsins. Börn og unglingar jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem og utan þess hafa haft aðgang að sýningunum í samstarfi við skólayfirvöld á hverjum stað.

 

Heimsóknir leikhússins í skóla landsins og heimsóknir skólanna í leikhúsið eru burðarásinn í starfsemi þess. Með því að nálgast áhorfendur á þennan hátt verður leikhúsið aðgengilegra börnunum og þannig hluti af eðlilegu skólastarfi. Með þessu fyrirkomulagi hefur leikhúsið fest sig í sessi í íslensku þjóðfélagi og er orðið stór þáttur í menningar- og listuppeldi barna um allt land.

 

Möguleikhúsið hefur unnið ötullega að því að kynna íslenska menningu á erlendri grundu með leikferðum og heimsóknum á alþjóðlegar hátíðir. Á undanförnum árum hefur leikhúsið farið í ellefu leikferðir til útlanda og fengið tíu erlenda leikhópa í heimsókn. Það má því með sanni segja að starf þess hafi verið viðurkennt á alþjóðavettvangi.