Morgunblaðið sunnudagur 17. október 1999

Möguleikhúsið

LANGAFI PRAKKARI

Leikrit eftir Pétur Eggerz byggt á sögum Sigrúnar Eldjárn. Leikstjóri: Pétur Eggerz. Leikarar: Bjarni Ingvarsson og Hrefna Hallgrímsdóttir. Búningar og brúðugerð: Katrín Þorvaldsdóttir. Leikmynd: Leikhópurinn. Tónlist: Vilhjálmur Guðjónsson.

Möguleikhúsið við Hlemm 14. október.

MÖGULEIKHÚSIÐ hefur verið duglegt við að setja upp sýningar sem unnar eru upp úr vinsælum barnabókum, enda leitast leikhúsið við að koma til móts við áhuga markhóps síns sem er fyrst og fremst börn. Sýningar um þær systur Snuðru og Tuðru og hinn sænskættaða Einar Áskel eru dæmi um slíkar barnasýningar á vegum Möguleikhússins sem notið hafa mikilla vinsælda og síðastliðinn fimmtudag frumsýndi leikhúsið Langafa prakkara sem leikhússtjórinn Pétur Eggerz samdi upp úr bókum Sigrúnar Eldjárn Langafi drullumallar og Langafi prakkari.
Hér er um að ræða fremur einfalda sýningu, sem hentar yngstu áhorfendunum vel, og lýsir samskiptum stúlkunnar Önnu og langafa hennar sem er fjörmikill þrátt fyrir háan aldur og blindu. Þau langafafeðginin tala saman, drullumalla og reyna að lokka langömmur í gildru. Öll samskipti þeirra, sem eru reyndar sett fram sem minningar Önnu þar sem langafi er dáinn, einkennast af kátínu og væntumþykju sem skilar sér vel til hinna ungu áhorfenda.
Þau Bjarni Ingvarsson og Hrefna Hallgrímsdóttir smellpössuðu í hlutverk langafa og Önnu og sýndu bæði mjög skemmtilega takta í túlkun sinni og léku vel saman. Reyndar má tala um “þriðja leikarann” sem er hundurinn Jakob. Þótt hér sé um að ræða brúðu, sköpunarverk Katrínar Þorvaldsdóttur, er hún svo haganlega gerð að hundurinn virðist bráðlifandi á sviðinu. Sömuleiðis var “samleikur” hundsins og leikararnna alveh bráðskemmtilegur.
Katrín gerir brúður og búninga sýningarinnar og er hennar vinna öll unnin af greinilegu listfengi og natni. Sem dæmi um það má nefna lopapeysur sem Katrín hefur væntanlega prjónað sjálf fyrir sýninguna eftir fyrirmynd úr bókum Sigrúnar Eldjárn. Þær voru afar fallegar (þótt maður vorkenndi leikurunum hálfvegis að þurfa að leika innanhúss í slíkum skjólfatnaði).
Sýningin var krydduð með sönglögum eftir Vilhjálm Guðjónsson við texta Péturs Eggerz. Tónlistin er nauðsynlegur þáttur í heildaráhrifum sýningarinnar og auka við léttleika hennar og fjör. Þessi sýning tekur um klukkustund í flutningi og flest börn ættu að geta haft gaman af henni. Nefna má að lokum að það er til fyrirmyndar hversu vel börnin í áhorfendahópnum eru virkt til þátttöku í því sem fram fer.

Soffía Auður Birgisdóttir