Íslensku jólasveinarnir

Í Þjóðminjasafninu

Í fjölda ára hefur Möguleikhúsið aðstoðað Þjóðminjasafnið við að taka á móti íslensku jólasveinunum er þeir fara að tínast til byggða á aðventunni. Það er jafnan mikið um dýrðir er þeir byrja að láta sjá sig og fjöldi barna sem mætir í safnið til að fagna þessum fjörlegu bræðrum.
Það er Stekkjarstaur sem ríður á vaðið þann 12. desember, en bræður hans fylgja síðan í kjölfarið einn af öðrum allt til aðfangadags jóla þegar Kertasníkir kemur. Allir hafa þeir lagt í vana sinn að koma við í Þjóðminjasafninu og eru þar vanalega um kl. ellefu að morgni þess dags sem þeir koma til byggða.
Þá hafa foreldrar þeirra, þau Grýla og Leppalúði, gjarnan kíkt við skömmu áður en fyrsti sveinninn kemur, svona rétt til að fullvissa sig um að allt sé í lagi og bræðrunum sé óhætt að láta sjá sig. Stundum hafa þau jafnvel tekið sjálfan jólaköttinn með sér.
Það er Pétur Eggerz sem hefur yfirumsjón með heimsókn sveinanna fyrir hönd Möguleikhússins, en tónlistarstjóri og sérstakur móttökufulltrúi er Guðni Franzson.

Jólasveinarnir hafa hingað til komið til byggða í þessari röð:

Stekkjarstaur kom fyrstur,
stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í fjárhúsin
og lék á bóndans fé.

Hann vildi sjúga ærnar,
– þá varð þeim ekki um sel,
því greyið hafði staurfætur,
– það gekk nú ekki vel
Giljagaur var annar,
með gráa hausinn sinn.
– Hann skreið ofan úr gili
og skauzt í fjósið inn.

Hann faldi sig í básunum
og froðunni stal,
meðan fjósakonan átti
við fjósamanninn tal.

Stúfur hét sá þriðji,
stubburinn sá.
Hann krækti sér í pönnu,
þegar kostur var á.

Hann hljóp með hana í burtu
og hirti agnirnar,
sem brunnu stundum fastar
við barminn hér og þar.

Sá fjórði, Þvörusleikir,
var fjarskalega mjór.
Og ósköp varð hann glaður,
þegar eldabuskan fór.

Þá þaut hann eins og elding
og þvöruna greip,
og hélt með báðum höndum,
því hún var stundum sleip.

Sá fimmti, Pottaskefill,
var skrítið kuldastrá.
– Þegar börnin fengu skófir
hann barði dyrnar á.

Þau ruku’ upp, til að gá að
hvort gestur væri á ferð.
Þá flýtti ‘ann sér að pottinum
og fékk sér góðan verð.

Sá sjötti, Askasleikir,
var alveg dæmalaus. –
Hann fram undan rúmunum
rak sinn ljóta haus.

Þegar fólkið setti askana
fyrir kött og hund,
hann slunginn var að ná þeim
og sleikja á ýmsa lund.

Sjöundi var Hurðaskellir,
– sá var nokkuð klúr,
ef fólkið vildi í rökkrinu
fá sér væran dúr.

Hann var ekki sérlega
hnugginn yfir því,
þó harkalega marraði
hjörunum í.

Skyrjarmur, sá áttundi,
var skelfilegt naut.
Hann hlemminn o’n af sánum
með hnefanum braut.

Svo hámaði hann í sig
og yfir matnum gein,
unz stóð hann á blístri
og stundi og hrein.

Níundi var Bjúgnakrækir,
brögðóttur og snar.
Hann hentist upp í rjáfrin
og hnuplaði þar.

Á eldhúsbita sat hann
í sóti og reyk
og át þar hangið bjúga,
sem engan sveik.

Tíundi var Gluggagægir,
grályndur mann,
sem laumaðist á skjáinn
og leit inn um hann.

Ef eitthvað var þar inni
álitlegt að sjá,
hann oftast nær seinna
í það reyndi að ná.

Ellefti var Gáttaþefur,
– aldrei fékk sá kvef,
og hafði þó svo hlálegt
og heljarstórt nef.

Hann ilm af laufabrauði
upp á heiðar fann,
og léttur, eins og reykur,
á lyktina rann.

Ketkrókur, sá tólfti,
kunni á ýmsu lag. –
Hann þrammaði í sveitina
á Þorláksmessudag.

Hann krækti sér í tutlu,
þegar kostur var á.
En stundum reyndist stuttur
stauturinn hans þá.

Þrettándi var Kertasníkir,
– þá var tíðin köld,
ef ekki kom hann síðastur
á aðfangadagskvöld.

Hann elti litlu börnin,
sem brostu, glöð og fín,
og trítluðu um bæinn
með tólgarkertin sín.

Ljóðin eru úr Jólassveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum.

Hlusta á lag

by frá sýningunni Íslensku jólasveinarnir