Gagnrýni um eldklerkinn

„Öll hvarf heimsins blíða“

TMM 4. nóvember 2013 · Silja Aðalsteinsdóttir

Pétur Eggerz leikari flytur um þessar mundir einleik sinn um Jón Steingrímsson, Eldklerkinn, í Hallgrímskirkju undir stjórn Sigrúnar Valbergsdóttur og var fyrsta sýningin í gær. Textann byggir hann á sjálfsævisögu Jóns sem er með merkustu ævisögum eftir Íslending á öllum öldum og þar er hápunkturinn auðvitað reynsla Jóns af Skaftáreldum og sjálf eldmessan.

Jón hóf að skrifa ævisögu sína eftir að hann missti Þórunni konu sína 1784. Þá voru Skaftáreldar sjálfir slokknaðir en hörmungarnar sem af þeim leiddi engan veginn afstaðnar. Ævisagan er að nokkru hugsuð sem varnarrit því Jón var ákærður fyrir að hafa útdeilt samskotafé til snauðra án leyfis og Pétur byrjar sýningu sína á því þegar Jón krýpur fyrir valdsmönnum á Alþingi, farinn að heilsu og krafti eftir ólýsanlegar raunir og þjáningar, og biðst forláts á því að hafa komið örbirgu fólki til hjálpar og bjargað því frá hungurdauða. Fyrir þetta var hann dæmdur og sektaður.

Í þessu ljósi örlaga Jóns sjáum við svo alla ævi hans sem Pétur rekur skilmerkilega. Jón er makalaus maður, fullur af kærleika og meðlíðan með fólki, vitur kennimaður og trúheitur, afbragðsgóður læknir, fús til þess á nóttu sem degi að líkna öllum sem til hans leita. Í raun og veru hefði hann átt að fá geislabaug fyrir lífsstarf sitt en ekki skammir og sekt en yfirvöld voru þá sem oftar þröngsýn og hengdu sig í mannasetningar og reglugerðir. Það er dæmigert að manninum sem fyrstur rauf innsiglið á kistlinum með söfnunarfénu og tók þaðan drjúga upphæð var ekki refsað af því hann hafði vit á að nudda sér undir eins utan í valdsmenn og smjaðra fyrir þeim.

Saga Jóns og saga Íslands á hans dögum er gígantískt söguefni sem einn einleikur – þó að tveggja tíma langur sé – gefur bara hugmynd um. En Pétur og Sigrún hafa unnið þetta verk af alúð svo ekki aðeins Jón kom til okkar í safnaðarheimili Hallgrímskirkju heldur fjöldi karla og kvenna sem hann hafði skipti við. Vísanir í okkar nýlega hrun og viðbrögð yfirvalda við því eru vel notaðar og oft meinlega fyndnar. Til dæmis var okkur áhorfendum kippt rækilega til í tíma þegar Thodal stiftamtmaður er spurður hvers vegna í ósköpunum hann hafi ekki beðið fyrr um hjálp til bágstaddra eftir hamfarirnar og hann svarar dræmt: „Ja, det er nu det. Maybe I should have …“ Og orðaleppar eftirhrunsára eins og „skjaldborg um heimilin“ fá aukna merkingu þegar þeir eru notaðir um endalaust ósættið og aumingjaskapinn við að bjarga því sem bjargað varð á tíma Móðuharðindanna.

Það er gagnleg kennslustund í ýmsu efni sem Pétur býður upp á og vonandi notfæra margir sér hana.

Eldklerkur á erindi enn

Jón Viðar Jónsson skrifar:

Eldklerkurinn
Höfundur og leikari: Pétur Eggerz.
Leikstjóri: Sigrún Valbergsdóttir. Leikmynd: Rósa Sigrún Jónsdóttir.
Möguleikhúsið sýnir Eldklerkinn í Hallgrímskirkju.

Sagan af séra Jóni Steingrímssyni, prófasti Vestur-Skaftfellinga, hefur lengi verið þjóðinni hugstæð. Myndin af honum og hinum litla söfnuði hans í kirkjunni á Klaustri í júní 1783, þegar hraunflóðið ryðst í átt að þeim við upphaf Skaftárelda og Móðuharðinda, hefur greypst í vitund hennar, þó að trúlega sé sú mynd nú orðin máð hjá mörgum. Prestur og söfnuður sameinast í heitri bæn til Guðs, en enginn flýr af hólmi, fólkið bíður æðrulaust sinna örlaga. Og sjá, að messugerð lokinni hefur hraunið stöðvast, almættisverk átt sér stað.

Sjálfsævisaga séra Jóns, þar sem þessum atburðum og framhaldi þeirra, er ítarlega lýst, er eitt af merkisritum bókmenntanna, eflaust besta rit sinnar tegundar ásamt Dægradvöl Gröndals og sögu séra Árna eftir Þórberg. Þar sameinast mögnuð og dramatísk aldarfarslýsing náinni og opinskárri persónusögu höfundar, svo við fátt verður jafnað. Og það er vel til fundið hjá Pétri Eggerz að semja upp úr bókinni einleik sem dregur fram meginþræði sögunnar með eðlilegri áherslu á þær raunir sem á séra Jóni dynja, ekki aðeins af völdum náttúrunnar, heldur einnig og ekki síður hrokafullra stjórnarherra og lítilmótlegra sveitunga. Pétur stendur einn á sviðinu allan tímann og rekur atburði, jafnframt því sem hann dramatíserar valda kafla, fer í gervi Jóns og ýmissa sem á vegi hans verða. Hann fléttar inn í brot úr kveðskap Jóns um hamfarirnar, sýnir sterka guðstrú hans sem sjaldan bilar, léttir ömurleika sögunnar með hæfilegum skömmtum af gamansemi. Þessi handritsgerð öll er afburða vel heppnuð og Pétur er sjálfur góður sögumaður sem heldur okkur föstum í tvo klukkutíma með stuttu hléi. Möguleikhús hans hefur einkum sinnt börnum og þó þessi sýning höfði til allra, þyrfti hún umfram allt að ná yngstu kynslóðinni sem fátt veit enn um hin hörðu kjör forfeðra okkar.

Textameðferð Péturs og framsögn er áheyrileg, en á til að verða eintóna, einkum þegar fram í sækir og lýsingarnar verða stórbrotnari. Það er ekki síst í köflunum eftir hlé að hann mætti draga af sér sem sögumaður, hægja á sér og standa kaldari gagnvart söguefninu sem eitt sér er kappnóg til að halda athygli okkar.

Aðstæður í Hallgrímskirkju, þar sem leikið er, bjóða skiljanlega ekki upp á fjölbreytta ljósabeitingu sem sýningin hefði annars notið góðs af. Leikmunir eru örfáir og táknrænir: prédikunarstóll, ferðakista, bókakassi, brúnir að lit, á móti grænum baksviðsdúk með óljósu stafakroti: græn grundin á leið undir hraunið, letrið sem geymir minninguna, þráðinn sem eyðingaröflin fá, þrátt fyrir allt, ekki slitið. Það er mjög við hæfi að sýna í kirkju, en ég hygg þó að séra Jón hefði sjálfur saknað þess að sjá hvergi neitt krossmark á sviðinu, kennitákn þess sem bar hann á örmum sér yfir voðann.

Guðni Franzson hefur skapað sýningunni hljóðheim sem er snilldin sjálf. Hann er afar hófstilltur og nær hátindi í eldmessunni, þar sem fjarlægir brestir og sprengingar í hrauneðjunni blandast saman við veikan en undurfagran flaututón úr fjarska. Vonin og fyrirheitið frammi fyrir dauðanum; pólarnir í sögu Eldklerksins og þess sem hann reisti líf sitt á.

Niðurstaða: Afar vel heppnuð tilraun til að endursegja eitt af höfuðritum bókmenntanna og veita innsýn inn í eitt dramatískasta tímabil Íslandssögunnar.

Leiksigur í Möguleikhúsinu

Arnþór Helgason skrifar:

Sýningu Möguleikhússins á einleiknum Eldklerkinum hefur  nokkuð borið á góma að undanförnu á síðum dagblaðanna tveggja auk netheima. Undrun margra vakti leikdómur Hlínar Agnarsdóttur sem fór ómildum orðum um
sitthvað í sýningunni.

Suðursalur Hallgrímskirkju var fullsetinn á sýningu
Möguleikhússins sunnudaginn 17. Þessa mánaðar. Pétur Eggerz var alla tíð einn á sviðinu. Leikmyndin var einföld og menn urðu að láta ímyndunaraflið um að skoða sitthvað sem gerðist á sviðinu. Dauf hljóðmynd studdi sum atriðin og leikræn tjáning leikarans, sem ef til vill er ekki lengur á „léttasta skeiði”, skilaði áhorfendum ýmsu sem sagan bjó yfir.

Undirrituðum þótti saga Jóns Steingrímssonar einkar vel sögð. Jafnvægið var gott á milli tímabila frásagnarinnar, en einleiknum má skipta í fjögur tímaskeið: Árin fram að 1755, búskaparár Jóns í Mýrdalnum, búsetuna að Prestbakka og eldinn og að lokum afleiðingar eldsumbrotanna. Fáu var ofaukið og enn færra skorti til þess að sýningin yrði heilsteypt, enda var greinilegt að Pétur lagði alla sína orku og anda í leikinn, sem er heilsteypt
listaverk.

Framsögnin var yfirleitt prýðileg. Þó hefði mátt betur hyggja að flutningi þeirra kvæðabrota, sem farið var með á sviðinu. Leikurum hættir um of til að flytja kvæði eins og samtal og skortir þá talsvert á hrynjandi kveðskaparins. En þetta eru smávægileg lýti sem auðvelt er að laga.

Pétri er óskað til hamingju með þennan leiksigur. Hann er nú með þann þroska reynds leikara að honum lætur vel að túlka ýmis aldurskeið, enda fór honum það vel úr hendi. Því verður hiklaust haldið fram að eldklerkurin sé með bestu einleikjum, sem sést hafa á sviði hér á landi að undanförnu.

Arnþór Helgason

Umsagnir af Facebook

„Fór á frábæra sýningu í dag, Eldklerkurinn um ævi Jóns Steingrímssonar og er Pétur Eggerz algjörlega frábær sem klerkurinn, og allir hinir. Auk lífshlaups klerksins eru Skaftáreldar og eyðileggjandi áhrif þeirra á líf og samfélag á þeim tíma í forgrunni. Og við í nútímanum að kvarta yfir smá ösku á gluggum…. Mæli með þessari sýningu!“ Ásdís Guðmundsdóttir

„Fór á þessa sýningu í dag, var snortin af Jóni Steingrímssyni og Pétri Eggerz og hugsi yfir eilífri misnotkun á valdi.“ Þórhildur Sveinsdóttir

„Takk fyrir frábæra sýningu. Natni, ást á viðfangsefninu, flott leikaravinna og næm og góð leikstjórn þar sem aldrei neitt er of eða van. Allt svo fágað, einlægt og eins og það á að vera. Frásagnarleikhús af bestu sort. Takk fyrir mig.“ Valgeir Skagfjörð

„Ég má til með að þakka Pétri og öðrum sem komu að þessari sýningu á Eldklerkinum fyrir frábæra og fróðlega leiksýningu og Pétur átti algjöran stjörnu leik. Mæli eindregið með þessu fyrir alla sem hafa áhuga á að fræðast um þennan merka mann og söguna af Skaftáreldunum. Topp-leiksýning. Takk fyrir mig.“ Elísabet Erlendsdóttir

„Við hjónin skemmtum okkur vel. Tilkomumikið verk og frábær frammistaða hjá Pétri. Leikskráin með þeim flottari sem ég hef séð, með landakorti og allt! Takk fyrir mig og til hamingju með þessa flottu leiksýningu.“ Margrét Bragadóttir

„Sá einleikinn Eldklerkurinn í Tjarnarbíói með hópi góðra vina í kvöld. Firnagóð sýning sem óhætt er að mæla með” Árni Sigurðsson

„Var á frumsýningunni í Hallgrímskirkju…frábær sýning..hvet alla sem geta að njóta hennar.“ Friðrik Brekkan

„Frábær sýning. Þakka kærlega fyrir mig.“ Einar Steinn Valgarðsson

„Takk fyrir frábæra sýningu :)Margrét Ólafsdóttir

„Við hjónin fórum með góðum vinum að sjá leikritið um Eldklerkinn. Mæli 100% með því.“ Margrét Einarsdóttir

„Með betri sýningum sem ég hef séð upp á síðkastið.“ Helga Jörgensen

„Mæli með þessari mögnuðu sýningu! Frábært leikrit í frábæru Tjarnarbíói.“ Snædís Baldursdóttir

„Mæli algjörlega með þessari sýningu…Ótrúlega grípandi frásögn og Pétur heldur manni allan tímann. Grín og alvara í bland. Ég fór út með tárin í augunum.. Ég verð að viðurkenna að ég hélt að einleikur um löngu dauðann karl gæti ekki verið svona skemmtilegur“ Ólöf Sverrisdóttir

„Þetta er frábær sýning. Pétur fór hreinlega á kostum. Takk fyrir mig.“ Steinunn María Benediktsdóttir

„Fór í leikhús, þriðja kvöldið í röð og annað skipti í gamla góða Tjarnarbíói. Fátt finnst mér skemmtilegra en að fara í leikhús. Í þetta sinn var það “Eldklerkurinn”, einleikur Péturs Eggerz hjá Möguleikhúsinu. Afburða vel gerð og leikin saga Jóns Steingrímssonar sem allir eiga að muna eftir frá Skaftáreldum. Fróðlegt og skemmtilegt leikhús … Drífið ykkur endilega, þið sjáið ekki eftir því.“ Lára Hanna Einarsdóttir

„Sáum þessa sýningu í gærkvöldi. Hún er hreint frábær!“ Elín Erlingsdóttir

„Frábær sýning – möst sí fyrir leiðsögumenn“ Anna Margrét Stefánsdóttir

„Þetta er frábært stykki og þess virði að eyða kvöldstund í“ Hjördís Jensdóttir

„Góð sýning“ Birgitta Bragadóttir

„Einstakt. Takk“ Marteinn Marteinsson

„Þið sem ekki eruð búin að sjá Eldklerkinn, drífa sig núna.“ Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

„Þetta var meiriháttar skemmtilegt verk og frábærlega gert.“ Steinunn Morawitz Steinars

„Ég hef alltaf verið svolítið montin af að vera afkomandi Jóns en aldrei sem í kvöld. Þetta er frábær sýning, takk fyrir mig.“ Sigrún Helgadóttir

„Þetta var mögnuð sýning, skildi mann eftir með gæsahúð, Pétur hreint frábær“ Jón Sigurðsson