Gagnrýni um Aðventuna

by | Feb 25, 2016 |

Hvernig læra menn að meta kaffi?

Silja Aðalsteinsdóttir, Viðskiptablaðið 19.3.2008

Sá einn veit hvað kaffi er sem hefur drukkið það í holu neðanjarðar í þrjátíu stiga frosti uppi á háöræfum með fjöll og fárviðri allt í kringum sig, segir Gunnar Gunnarsson í Aðventu. Þá hefur gamli Benedikt þraukað á fjöllum í þrjár vikur með naumt nesti og stopulan félagsskap fyrir utan hundinn Leó og sauðinn Eitil, og það er hollt að rifja upp við og við hvað kjörum mannanna er misskipt. Pétur Eggerz leikari og leikhússtjóri Möguleikhússins vinnur afrek með túlkun sinni á sögu Gunnars sem frumsýnd var á sunnudagskvöldið. Hann segir þessa rammíslensku hrakningasögu af einlægni og dirfsku, leikur persónur hennar tilgerðarlaust en þó af styrk, þannig að þær standa ljóslifandi fyrir framan mann.

Alda Arnardóttir gerir leikgerð af sögunni, dregur mjög úr tilfinningasemi hennar og kristilegu táknmáli en lætur standa eftir þetta raunsanna afrek alþýðumannsins sem getur ekki látið saklausar skepnur horfalla á helgum jólum vegna kæruleysis mannanna. Messíana Tómasdóttir gerir sviðið sem er fagurt og smekklegt eins og allt sem hún kemur nálægt. Hljóðmynd Kristjáns Guðjónssonar er sett saman úr stemmum, Liljulagi og fleiri kunnuglegum stefjum auk magnaðra áhrifshljóða þegar veðrið tryllist á fjöllum.

Möguleikhúsið býður skólum þessa sýningu, og er óskandi að sem allra flestir unglingar fái að fara þessa erfiðu ferð með Fjalla-Bensa, ekki síst til að upplifa endinn á henni.

AÐVENTA

Leikdómur Þorgerðar E. Sigurðardóttur

fluttur í Víðsjá, Rás 1 17. mars 2008

Möguleikhúsið er að mörgu leyti einstakt í í íslensku leikhúsflórunni. Það er til dæmis algerlega tileinkað sýningum fyrir börn og unglinga og er það að ég best veit einsdæmi hérlendis. Möguleikhúsið var stofnað árið 1990 og hefur frá 1994 verið með fasta aðstöðu í húsnæði við Hlemm en stór hluti af starfseminni fer reyndar fram utan þess þar sem sýningar leikhússins eru iðulega einnig farandleiksýningar og hefur leikhúsið verið í miklu samstarfi við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla í gegnum tíðina. Það þarf varla að taka fram hversu mikilvæg slík starfsemi er, með því að færa leikhúsið til barnanna á þessum vettvangi er séð til þess að öll börn kynnist leikhúsinu og það er auðvitað bráðnauðsynlegt fyrir framtíð leikhúss á Íslandi. Það hafa verið gerðar kannanir á því að börn sem lesa mikið eru miklu líklegri en önnur til að halda áfram að lesa á fullorðinsárum og það sama gildir eflaust um leikhúsið. Leiksýningar Möguleikhússins eru líka afar ólíkar sýningunum sem mörg börn hafa vanist á stóru sviðum leikhúsanna þar sem söngleikjastemningin og sjónræn ofgnótt er oft í fyrirrúmi. Hér kynnast þau möguleikum leiklistarinnar í mun meira návígi.

Um helgina frumsýndi Möguleikhúsið leikgerð Öldu Arnardóttur á Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson. Það má líklegast segja að Aðventa sé ástsælasta saga Gunnars og sú bók sem ég hugsa að hafi oftast verið endurútgefin á undanförnum árum. Sagan kom hinsvegar fyrst út árið 1939 og segir frá ferðum vinnumannsins Benedikts sem heldur til fjalla á aðventunni í þeim tilgangi að leita uppi fé sem varð eftir á fjalli þegar smalað var um haustið. Þetta hefur Benedikt gert árum saman og lent í ýmsu en þessi ferð virðist hinsvegar ætla að verða sérstaklega erfið vegna aftakaveðurs og er honum ráðið frá því að leggja líf sitt í hættu en allt kemur fyrir ekki, hann getur ekki hugsað sér að skilja kindurnar eftir og heldur því af stað með hund og forystusauð sér við hlið. Hann lendir auðvitað í ýmsum hremningum og tefst þónokkuð á ferð sinni þar sem hann tekur að sér að hjálpa öðrum í svipuðum aðstæðum og lætur eigin verkefni sitja á hakanum. Þetta lítur alls ekki vel út um tíma en allt bjargast þó að lokum og Benedikt kemst til byggða eftir miklar svaðilfarir.

Aðventa er afskaplega falleg og vel skrifuð saga. Hún er byggð á frásögnum af afreksverkum Benedikts Sigurjónssonar sem var betur þekktur undir nafninu Fjalla-Bensi, sérstaklega er hér vísað í eftirleitarferð hans árið 1925. Að mörgu leiti heppnast leikgerðin á sögunni ágætlega, hún gefur góða mynd af þessari sterku persónu, heiðarleika hennar og fórnfýsi en jafnframt skynjar áhorfandinn ágætlega þegar hann verður áhyggjufullur og hræddur. Sérstaklega fannst mér áhrifamikið þegar tilfinningum Benedikts hvað varðar dauðann og framtíðina er lýst, þegar hann kemst á áfangastað finnur hann til að byrja með aðeins eina dauða kind og það hefur mikil áhrif á hann og á tímabili virðist hann vera að missa trúna á þetta ferðalag. Það hefði mátt vinna aðeins betur með endalokin sem eru einhvern veginn dálítið óljós og svo er dálítið um endurtekningar sem hefði mátt huga að. Hér eru notuð framsetningaraðferð sem stundum er kennd við frásagnarleikhús og gengur úr á það að einn leikari og stundum reyndar fleiri segja söguna og bregða sér þess á milli í hlutverk persónanna og leikur hver leikari þá iðulega fleira en eitt hlutverk. Þetta form er reyndar algengast í einleikjum eins og hér en það er Pétur Eggerz sem færir áhorfendum söguna í þessari sýningu. Hann bregður sér auðvitað oftast í hlutverk Benedikts en leikur líka ýmsa sem hann hittir á leiðinni. Þetta kemur oftast vel út, stundum fannst mér aukapersónurnar að vísu nokkuð keimlíkar í túlkun Péturs en aðalpersónan er skýr og komast persónueinkenni hennar ágætlega til skila. Hljóðmynd Kristjáns Guðjónssonar er styður mikið við stemninguna í verkinu og leikmynd Messíönu Tómasdóttur er falleg og táknræn, hún styður meðal annars við trúarlegar hugmyndir sem eru áberandi.

Þetta verk er ætlað þrettán ára og eldri en það er í sjálfu sé ekki margt við hana sem gerir hana að beinlínis að unglingaleiksýningu, ég get ekki betur séð en að hún eigi að höfða jafnt til fullorðinna og unglinga. Ég velti því fyrir mér þegar ég var að horfa á þessa sýningu hvernig ég hefði brugðist við henni þegar ég var unglingur. Hér er auðvitað verið að fjalla um gildi sem skipta jafnmiklu máli í dag og áður, það er að segja, vináttu, hugprýði, samkennd og kærleika. Aðstandendur sýningarinnar treysta ungu fólki til þess að hafa áhuga á einhverju sem tengist reynsluheimi þeirra ekki beinlínis efnislega og það er án efa hægt að skapa miklar og góðar umræður um boðskap þessarar sýningar. Hér þarf að treysta þeim sem horfa til þess að heimfæra boðskapinn upp á samtímann og það er auðvitað að vissu leyti ágætt, það hafa allir gott af því að hafa aðeins fyrir í því að túlka og nálgast efnivið sem þennan persónulega. En það er einnig hætt við því að einhverjir af yngri áhorfendunum muni hreinlega ekki nenna að leggja í slíka svaðilför og þetta verður kannski ekki endilega til þess að auka leikhúsáhuga þeirra. En það er auðvitað ekki á allt kosið og mér finnst í raun bara frekar svalt af Möguleikhúsinu að fara þessa leið. Ég hugsa að ég hefði haft gaman af þessari sýningu þegar ég var unglingur en þó ekki á sömu forsendunum og núna. Á þessum aldri hafði ég mest gaman af hryllingi, spennu og allskonar furðufyrirbærum og því hugsa ég að lífsháskastemningin hefði verið ofarlega á blaði á þeim tíma, en frásögnin hefði kannski orðið dagdraumunum að bráð. En það er auðvitað hættulegt og hæfilega óábyrgt að fabúlera svona.

Þess ber að geta í lokin að um þessar mundir stendur Möguleikhúsið frammi fyrir því í fyrsta sinn í fjórtán ár að hljóta engan stuðning frá menntamálaráðuneytinu þegar úthlutað var fé til atvinnuleikhópa. Möguleikhúsið er að vísu með samstarfssamning við Reykjavíkurborg en það nægir ekki til þess að halda úti leikhúsinu þeirra við Hlemm. Auðvitað er það svo að margir sækja um þessa fáu styrki sem frjálsum leikhópum bjóðast og það má auðvitað færa rök fyrir því að sem flestir eigi að fá tækifæri við slíkar úthlutanir en hinsvegar verður að líta til þess að Möguleikhúsið hefur algera sérstöðu og hefur mikilvægu hlutverki að gegna í menningaruppeldi og skólastarfi. Það er því synd og skömm ef svo fer sem horfir að Aðventa verði jafnvel síðasta sýningin sem Möguleikhúsið sýnir í leikhúsinu sínu en stjórnvöld virðist skorta framsýni og menningarlega heildarsýn í þessu tilviki en það er líklegast efni í annan pistil. Þess ber þó að geta að Möguleikhúsið mun blessunarlega ekki hætta starfsemi sinni en hún gæti dregist saman af þessum völdum. Áhorfendur eru hinsvegar hvattir til að heimsækja litla leikhúsið við Hlemm, það fer nefnilega kannski hver að verða síðastur.

Aðventan á sviði

Fréttablaðið 31.3.2008

Möguleikhúsið frumsýndi fyrir réttri viku leikgerð Öldu Arnardóttur eftir hinni þekktu sögu Gunnars Gunnarssonar, Aðventu, í húsnæði sínu við Hlemm.

Möguleikhúsið frumsýndi fyrir réttri viku leikgerð Öldu Arnardóttur eftir hinni þekktu sögu Gunnars Gunnarssonar, Aðventu, í húsnæði sínu við Hlemm. Alda leikstýrir verkinu en flytjandinn er einn, Pétur Eggerz. Mun fyrirhugað að hafa sýningu á verkefnaskrá leikhússins sem hefur um langt árabil einbeitt sér að sýningum fyrir börn og unglinga og er eini sjálfstæði leikhópurinn sem á sér fastan íverustað í eigin eigu og heldur þar úti samfelldri starfsemi auk þess sem leikið er á farandsýningum víða um land í grunnskólum og leikskólum. Hefur Möguleikhúsið til þessa haft í rekstur sinn framlag frá Reykjavíkurborg og frá Leiklistarráði. Þar til í ár en bæði borg og ríki hafa látið af styrk til starfseminnar sem verður að teljast afar hæpin ráðstöfun.

Sýningar Möguleikhússins hafa alla tíð einkennst af þolgæði. Þrátt fyrir litla styrki hafa þeir fáu einstaklingar sem þar standa í rekstri staðið fyrir leiksýningum fyrir alla aldurshópa barna. Er heimskulegt af úthlutunarnefndum borgar og ráðuneytis að stöðva til þeirra alla styrki.

Sviðsetningin á Aðventu mun einkum hugsuð fyrir eldri bekki grunnskólans. Hún er eins og margar einleikssýningar sem tíðkast víða um þessar mundir sprottin af tilteknu ástandi í framleiðslukerfi leiklistar á Íslandi. Tiltekinn leikari hefur áhuga á að koma sér upp tekjulind, segja tiltekna sögu. Sá áhugi er í grunninn kominn til af lágum styrkjum hins opinbera til leiklistarstarfsemi. Styrkur til eins manns sýningar er auðfáanlegur, stofnkostnaður er ekki hár, áhætta um eigið framlag er ekki stórvægileg og auðgert að fá samstarfsmenn til að leggja vinnu sína fram án hárra launakrafna. Fæstir þeirra sem ráðast í slíkar sýningar myndu kosta því til nema sem neyðarúrræði. Stæðu önnur og veigameiri verkefni til boða væri þeim frekar sinnt. En þessi frumbýlingsstaða hefur leitt af sér nokkurn hóp innlendra verka sem er blanda þess að vera sýning og upplestur því misjafnlega eru efni til þess að gera úr efninu mikil átök. Enda gjarnan sótt inn í hús sem eru þröng og leyfa ekki mikla umgerð. Menn hafa talið þessa tegund leiklistar eitthvert stáss í leiklistarlífi okkar en svo er ekki: einleikurinn er neyðarbrauð.

Aðventa er sumpart frásögn sögumanns, sumpart leikin samtöl þar sem sögumaðurinn bregður sér milli örfárra persóna, hann tekur á sig líki þessara einstaklinga, en bætir um betur, leikur á móti veðri og skepnunum sem eru stór hluti af þessari merkilegu sögu sem Gunnar færði úr einföldum búningi hrakningasögunnar í stóra og víðfeðma dæmisögu um umhyggju fyrir öllu sem lifandi er og gaf aukið tákngildi með því að láta hana gerast á aðventunni sjálfri.

Allt í frágangi sýningarinnar var vel úr garði gert: leikmynd Messíönu Tómasdóttur frábærlega falleg smíð í einfaldleika sínum, þaulhugsuð sem táknmynd en um leið nærri natúralísk umgerð. Baðstofa, hjarn, skafl og jarðhús í einni mynd. Tónlist Kristjáns Guðjónssonar var smekkleg og skyggði hvergi á heldur ýtti undir atburðarás og stemninguna. Pétur Eggerz fór af smekkvísi með hin mörgu andlit sem í sögunni birtast. Hann átti ekki auðvelt með að gera ljóslifandi þá einstaklinga sem þarna birtast, sumir karlanna í sögunni runnu saman í raddbeitingu, Pétur býr ekki yfir þeirri sveigju í rödd að hann geti brugðið sér í margra kvikinda líka. Fyrir bragðið var leikur hans fátóna.

Í inngangsorðum verksins er okkur sagt fyrirmunað að skilja fjárgæslu á vetrum. Okkar tímar skynji ekki þá miklu vá sem vofði yfir fjármönnum í vetrarveðrum. Ég er ekki viss um að það sé að öllu leyti rétt: þúsundir manna leggja sig eftir ferðalögum um öræfi árið um kring. Á bóginn þekkir enginn þá lífsreynslu nema sá sem á hana. Fyrir bragðið er mér erindi Aðventu í leiksýningu af þessu tagi ekki ljóst. Hinn kristilegi boðskapur verksins er ekki eindreginn í túlkun Öldu og samverkamanna manna hennar enda vafasamt að hann næði eyrum markhópsins. En tilraunin er þess virði.

Páll Baldvin Baldvinsson

Eftirfarandi leiðrétting við leikdóm Páls Baldvins Baldvinssonar um leiksýningu Möguleikhússins á Aðventu hefur borist Fréttablaðinu frá Pétri Eggerz: “Í leikdómi um sýningu Möguleikhússins á Aðventu segir að bæði ríki og borg hafi látið af stuðningi til starfsemi leikhússins á yfirstandandi ári. Hér er ekki rétt farið með. Hið rétta er að við úthlutun Menntamálaráðuneytis á fé til sjálfstæðra leikhúsa sem fram fer samkvæmt tillögum Leiklistarráðs hlaut Möguleikhúsið í fyrsta sinn í fjórtán ár engan stuðning þaðan, hvorki í formi starfslauna né beins fjárstuðnings. Reykjavíkurborg styrkir Möguleikhúsið hins vegar um þrjár milljónir króna í ár og er það samkvæmt þriggja ára starfssamningi. Sá samningur var endurnýjaður fyrir rúmu ári og lækkaði þá um 25 prósent frá því sem áður var. Menntamálaráðuneytið hefur nú veitt Möguleikhúsinu 2 milljónir króna til reksturs leikhússins á yfirstandandi ári. Samtals hefur Möguleikhúsið því hlotið 5 milljónir króna til reksturs og uppsetninga leikverka í ár. Það er ljóst að þessi stuðningur dugir hvergi nærri fyrir óbreyttum áframhaldandi rekstri og stefnir því allt í að Möguleikhúsið flytji úr húsnæði því sem það hefur yfir að ráða við Hlemm síðar á árinu og dragi verulega úr allri starfsemi. Þá segir á öðrum stað í dómnum “Í inngangsorðum verksins er okkur sagt fyrirmunað að skilja fjárgæslu á vetrum. Okkar tímar skynji ekki þá miklu vá sem vofði yfir fjármönnum í vetrarveðrum.” Þessar fullyrðingar er hvergi að finna í texta sýningarinnar og eru því alfarið túlkun gagnrýnandans á verkinu.”

Aðventa eða „að láta gott af sér leiða“

Mánudaginn 7. apríl, 2008 – Leiklist

  • Leikarinn Pétur Eggerz fer með öll hlutverkin í sýningunni.

Leikgerð Öldu Arnardóttur á sögu Gunnars Gunnarssonar. Pétur Eggerz flytur og bregður sér í hlutverk helstu persóna. Hljóðmynd: Kristján Guðjónsson. Leikmynd og búningar: Messíana Tómasdóttir. Lýsing: Bjarni Ingvarsson.
AÐVENTA eftir Gunnar Gunnarsson er byggð á persónu Benedikts nokkurs Sigurjónssonar sem lagði af stað með öðrum þann 10. desember 1925 í leit að kindum en hélt svo áfram eftir að hinir hættu við þremur dögum síðar. Upp úr þessu samdi Gunnar langa smásögu sem hét Góði hirðirinn sem hann síðan tálgaði niður í Aðventu. Hún var fyrst gefin út í Þýskalandi árið 1936, síðan þýdd á íslensku af Magnúsi Ásgeirssyni og birtist hérlendis árið 1939. Í nýjustu útgáfu hennar (Bjartur 2007) er sagan um tuttugu þúsund orð eða rúmlega áttatíu síður.

Að breyta einni af frægustu smásögum landsins í leikrit er talsvert afrek. Alda Arnardóttir gerir þetta svo prýðilega að maður undrast af hverju engum hafði dottið það í hug áður. Frásögn Gunnars er í þriðju persónu en það er innri rödd Benedikts og samtöl hans sem knýja söguna áfram og þau nýtir Alda vel í leikgerðinni. Þar sem sýningin er ekki nema ein klukkustund er óhjákvæmilega margt sem er stytt eða sleppt og þar á meðal ýmsar heimspekilegar vangaveltur höfundar. Hins vegar tekst Öldu sérstaklega vel að skapa lifandi mynd af þessum ljúfa manni. Það er mikið álag fyrir Pétur Eggerz að leika öll hin hlutverkin og sérstaklega þar sem hann þarf stundum að skipta á milli þeirra á stuttum tíma. Þetta hlýtur hann að slípa til með hverri sýningu. Aðdáunarvert er hvernig Pétur lifir sig inní hlutverkin en þó vantar upp á tæknina hjá honum til þess að skilja betur á milli persónanna. Hljóðmynd Kristjáns Guðjónssonar fer vel í þessum einleik og sviðsmynd Messíönu Tómasardóttur, eins og sagan sjálf, segir miklu meira en það sem við sjáum við fyrstu sýn.

Það kann að vera undarlegt að sýna verk sem heitir Aðventa um páska en Benedikt segir í upphafi sögunnar að hann hafi smám saman komist að því að „allt hans líf væri orðið ein aðventa“, eins konar bið „eftir einhverju betra, eftirvænting, undirbúningi – þeirri ákvörðun að láta gott af sér leiða“. Því miður rímar það ekki við ákvörðun menntamálaráðuneytisins að veita Möguleikhúsinu ekki styrk í ár. Kannski ættu menn hjá úthlutunarnefnd ráðuneytisins að lesa sögu Gunnars aftur, og enn betra væri að fara á þessa sýningu og endurskoða ákvörðun sína.

Martin Stephan Regal