Leiksýningar

Þær sýningar sem í boði eru veturinn 2016-2017

Eldklerkurinn

Einleikur um séra Jón Steingrímsson og Skaftárelda. Jón Steingrímsson er kunnastur fyrir eldmessuna er hann flutti í miðjum Skaftáreldum, en hver var hann, hvaðan kom hann og hver urðu örlög hans? Hér er sögð saga frá 18. öld af góðum bónda, lækni og presti sem þarf að takast á við afleiðingar skelfilegustu náttúruhamfara Íslandssögunnar á tímum örbirgðar og undirokunar.Leikverkið byggir að mestu á skrifum Jóns, en um leið vekur það spurningar um hliðstæður við hamfarir af völdum manna og náttúru sem yfir þjóðina hafa dunið á síðustu árum.

Eldbarnið

– hamfaraleikrit fyrir börn –
Hvernig bregst lítil stúlka við þegar veröldin umturnast vegna ógnvænlegra eldsumbrota?
Sumarið 1783 gengu yfir Skaftafellssýslu þær mestu náttúruhamfarir sem orðið hafa frá því að land byggðist. Sólveig litla þarf að takast á við nýja og gjörbreytta tilveru þegar bærinn hennar er horfinn undir hraun og hún stendur uppi ein og munaðarlaus á viðsjárverðum tímum.
Hér heldur Möguleikhúsið áfram umfjöllun um mannlíf á tímum Skaftárelda, en síðasta vetur frumsýndi það einleikinn Eldklerkinn sem hlaut afburðagóðar viðtökur. Að þessu sinni eru atburðirnir skoðaðir frá sjónarhóli ungrar stúlku í nýju barnaleikriti.

Völuspá

Völuspá var frumsýnd í Möguleikhúsinu á Listahátíð í Reykjavík vorið 2000. Sýningin var tilnefnd til menningarverðlauna DV fyrir árið 2000 og hlaut Grímuna – íslensku leiklistarverðlaunin 2003

Verkið byggir á hinni fornu Völuspá og veitir áhorfendum sýn inn í hugmyndaheim heiðinnar goðafræði. Þar segir m.a. frá fróðleiksfýsn Óðins, græðgi í skáldamjöðinn, forvitni hans um nútíð og framtíð, Fenrisúlfi, Baldri, Loka, Hugin og Munin og ótal fleiri persónum.

Leikstjóri sýningarinnar er Peter Holst, Guðni Franzson stýrði tónlistinni í verkinu og leikmynd og búninga hannaði Anette Werenskiold. Á sviðinu eru Pétur Eggerz sem leikur öll hlutverkin í Völuspá og tónlistarmaðurinn Birgir Bragason.

Frá því Völuspá var frumsýnd hefur sýningin gert víðreist, m.a. verið sýnd á hátíðum í Rússlandi, Svíþjóð, Kanada, Finnlandi, Færeyjum, Bandaríkjunum, Þýskalandi og Frakklandi.

Sýningar á Völuspá eru nú orðnar rúmlega 200 talsins.

Hvar er Stekkjarstaur?

eftir Péetur Eggerz

Það er kominn 12. desember, en jólasveinninn Stekkjarstaur kemur ekki til byggða. Þegar Halla fer að athuga hvernig á því standi kemst hún að því að jólasveinunum er orðið svo illa við allan isinn og þysinn í mannheimum að þeir hafa ákveðið að hætta að fara til byggða um jólin. Tekst Höllu að fá þá til að skipta um skoðun?

Þessi sýning er skemmtileg og vel unnin og vonandi fá sem flest íslensk börn að sjá hana.
SAB – Mbl.

Fyrir áhorfendur á aldrinum 2ja – 10 ára

AÐVENTA

Leikgerð Öldu Arnardóttur, byggð á sögu Gunnars Gunnarssonar

„Þegar hátíð fer í hönd, búa menn sig undir hana, hver á sína vísu.“

Þannig hefst saga Gunnars Gunnarssonar, Aðventa.
Hér er sagt frá svaðilförum vinnumannsins Benedikts sem fer til fjalla í vetraríki aðventunnar að leita þess fjár sem eftir varð er smalað var um haustið. Það er köllun hans að koma þessum eftirlegukindum til byggða fyrir hátíðirnar. Þetta er klassísk saga um náungakærleika og fórnfýsi í vetrarhörkum íslenskra öræfa. sýningunni er unnið eftir aðferðum frásagnarleikhússins þar sem einn leikari, Pétur Eggerz, stendur á sviðinu, flytur söguna og bregður sér jafnframt í hlutverk helstu persóna

Íslensku jólasveinarnir í Þjóðminjasafninu

í fjölda ára hefur Möguleikhúsið aðstoðað Þjóðminjasafnið við að taka á móti íslensku jólasveinunum er þeir fara að tínast til byggða á aðventunni. Það er jafnan mikið um dýrðir er þeir byrja að láta sjá sig og fjöldi barna sem mætir í safnið til að fagna þessum fjörlegu bræðrum.

Þá hafa foreldrar þeirra, þau Grýla og Leppalúði, gjarnan kíkt við skömmu áður en fyrsti sveinninn kemur, svona rétt til að fullvissa sig um að allt sé í lagi og bræðrunum sé óhætt að láta sjá sig. Stundum hafa þau jafnvel tekið sjálfan jólaköttinn með sér.